Þeir hefðu getað skorað átta

Ole Gunnar Solskjær var sáttur í leikslok.
Ole Gunnar Solskjær var sáttur í leikslok. AFP

„Mér líður mjög vel,“ sagði Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, í samtali við BT Sport eftir að liðið hafði tryggt sér sæti í úrslitum Evrópudeildar UEFA í Gdansk í Póllandi hinn 26. maí.

United tapaði 3:2-fyrir Roma í síðari leik liðanna í undanúrslitum keppninnar á Ítalíu í kvöld en United vann fyrri leikinn á Old Trafford 6:2 og fer því áfram í úrslitaleikinn, samanlagt 8:5.

„Við spiluðum frábærlega í fyrri leiknum og það skilaði okkur sæti í úrslitaleiknum,“ sagði Solskjær.

„Ég hata að tapa en við vissum það fyrir fram að þetta yrði mjög opinn leikur og að bæði lið myndu fá sín færi. 

Þetta hefði hæglega getað endað 6:6 eða 8:6 fyrir Roma. Þetta var mjög skrítinn leikur. Við töpuðum boltanum á hættulegum stöðum trekk í trekk en við erum sem betur fer með einn besta markmann heims í okkar liði.

Við erum líka með framherja sem elskar að skora mörk og þeir skiluðu sínu í kvöld. Ég er ósáttur með fyrri hálfleikinn en það sem mestu máli skiptir er að við erum komnir áfram í úrslitaleikinn,“ bætti Solskjær við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert