Ætlar með Everton í Meistaradeildina

Carlo Ancelotti var í 21 ár í röð í Meistaradeild …
Carlo Ancelotti var í 21 ár í röð í Meistaradeild Evrópu. AFP

Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Everton saknar þess að vera með lið í Meistaradeild Evrópu og segir að markmiðið sé að koma enska félaginu þangað.

Ancelotti stýrði liðum í Meistaradeildinni samfleytt frá 1998 og þar til hann tók við Everton en hann var við stjórnvölinn hjá Juventus, AC Milan, Chelsea, París SG, Real Madrid, Bayern München og Napoli á 21 árs tímabili.

Spurður á fréttamannafundi í dag hvort hann saknaði Meistaradeildarinnar svaraði hann: „Ég sjálfur? Já. Mér finnst Meistaradeildin vera besta keppni heims og ég sagði þegar ég kom hingað að það væri gríðarleg hvatning fyrir mig að reyna að koma Everton í Meistaradeildina. Þetta er framtíðarmarkmiðið. Ég veit ekki hve langan tíma það mun taka en vonandi munum við fljótlega spila þar,“ sagði Ancelotti.

Everton tekur á móti Leicester í stórleik í úrvalsdeildinni annað kvöld en Everton er í sjötta sæti deildarinnar með 32 stig og Leicester er í þriðja sætinu með 38 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert