Skulda Liverpool tugi milljóna

Barcelona á ennþá eftir að borga háar fjárhæðir fyrir þá …
Barcelona á ennþá eftir að borga háar fjárhæðir fyrir þá Philippe Coutinho og Frenkie de Jong. AFP

Knattspyrnulið Barcelona á Spáni er skuldum vafið þessa dagana en félagið skuldar tugi milljóna fyrir gömul leikmannakaup.

Mirror greinir frá því Barcelona skuldi alls 174 milljónir punda til allt upp í nítján félagsliða fyrir gömul leikmannakaup en þetta hefur miðillinn eftir ársreikningi félagsins.

Barcelona skuldar Englandsmeisturum Liverpool 35,5 milljónir punda fyrir Philippe Coutinho sem gekk til liðs við Barcelona frá Liverpool í janúar 2018.

Barcelona borgaði 105 milljónir punda fyrir leikmanninn í janúar 2018 en 35,5 milljónir punda voru árangurstengdar og stóðu og féllu með fjölda spilaðra leikja fyrir spænska félagið.

Coutinho hefur verið fastamaður hjá Barcelona á tímabilinu og því er komið að skuldadögum hjá spænska félaginu.

Þá skuldar Barcelona sem dæmi franska fyrstudeildarfélaginu Bordeaux tæplega níu milljónir punda fyrir kaupin á Malcom árið 2018. Barcelona skuldar einnig brasilíska félaginu Gremio 12 milljónir punda fyrir að hafa selt Arthur Melo til Juventus síðasta sumar.

Þá skuldar Barcelona Ajax ennþá 48 milljónir punda fyrir Frenkie de Jong sem gekk til liðs við spænska félagið frá því hollenska síðasta sumar.

Ronald Koeman tók við stjórnartaumunum hjá Barcelona síðasta sumar en félagið er í þriðja sæti spænsku 1. deildarinnar með 37 stig, tíu stigum minna en topplið Atlético Madrid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert