Viljum ekki vita hve lengi hann verður frá

Jürgen Klopp og hans menn taka á móti Sheffield United …
Jürgen Klopp og hans menn taka á móti Sheffield United annað kvöld. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool sagði á fréttamannafundi nú í hádeginu að hann gæti engu svarað um hversu lengi Virgil van Dijk, miðvörður liðsins, verður frá keppni eftir að hafa skaddað krossband í leiknum gegn Everton um síðustu helgi.

„Ég skil vel að fólk hafi áhuga á að vita það. Hvenær hann verði skorinn upp og slíkt. Það þjónar engum tilgangi að vera með daglegar ágiskanir um tímalengd. Hann hefur það eins gott og mögulegt er. Við viljum ekki vita hve lengi hann verður frá keppni. Það mun taka sinn tíma, svo mikið er víst, en hver einstaklingur er sérstakur og við getum ekki búið eitthvað til með því að segja að það hafi tekið þennan og hinn svona langan tíma að ná sér. Þetta er einstaklingsbundið því hver og einn bregst á sinn hátt við svona meiðslum," sagði Klopp.

Hann gaf að öðru leyti lítið út á ástand sinna manna en nokkuð ljóst er að markvörðurinn Alisson verður ekki með gegn Sheffield United annað kvöld þegar liðin mætast á Anfield klukkan 19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert