Van Dijk tjáir sig um meiðslin

Tæklingin sem orsakaði meiðsli Virgil van Dijk.
Tæklingin sem orsakaði meiðsli Virgil van Dijk. AFP

Í dag kom í ljós að hollenski varnarmaðurinn Virgil van Dijk þarf að fara í uppskurð vegna alvarlegra hnémeiðsla sem hann varð fyrir í leik Liverpool og Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. Verður van Dijk lengi frá vegna meiðslanna og óvíst hvort hann spilar aftur á leiktíðinni. 

Van Dijk tjáði sig um meiðslin á Twitter í dag og er hann staðráðinn í að koma sterkur til baka, en hann varð fyrir meiðslunum er Jordan Pickford markvörður Everton tæklaði hann harkalega innan vítateigs. 

„Ég er ákveðinn í að koma til baka sem fyrst. Ég er auðvitað vonsvikinn, en ég trúi því innilega að með erfiðleikum opnist fyrir önnur tækifæri og ég mun koma til baka sterkari en nokkru sinni fyrr með hjálp guðs. 

Í fótbolta og lífinu sjálfu er tilgangur með öllu sem gerist og það er mikilvægt að halda ró sinni í gegnum súrt og sætt. Með hjálp eiginkonu minnar, barna, fjölskyldu og Liverpool er ég klár í komandi áskoranir,“ skrifar Hollendingurinn m.a.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert