Pirraðir Liverpool-menn vilja rannsókn á VAR

Jordan Henderson var afar svekktur í leikslok.
Jordan Henderson var afar svekktur í leikslok. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool eru allt annað en sáttir við myndbandsdómgæslu, VAR, eftir 2:2-jafntefli við erkifjendurna í Everton í ensku úrvalsdeildinni í gær. Eru tvö atvik sem Liverpool hefur beðið forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar að rannsaka. 

Annars vegar þegar brotið var á Virgil van Dijk innan teigs, en í stað þess að fá víti var dæmd rangstaða á Hollendinginn sem fór meiddur af velli eftir tæklingu frá Jordan Pickford.

Hins vegar skoraði Jordan Henderson í uppbótartíma í stöðunni 2:2, en markið var dæmt af vegna rangstöðu, en Sadio Mané var örfáum millimetrum fyrir innan að mati myndbandsdómara. 

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool var allt annað en sáttur eftir leik. „Ég kom inn í búningsklefann og þá var fólk búið að sjá endursýningu og það skildi ekki af hverju markið fékk ekki að standa. Þú býst við að það komi rétt niðurstaða, en allir segja að þetta hafi ekki verið rangstaða. Í fyrra var handarkrikinn í rangstöðu, en hann var ekki einu sinni fyrir innan,“ sagði Klopp við Sky. 

Fyrirliðinn Jordan Henderson var lítið ánægðari. „Auðvitað var dæmd rangstaða. Allir sem sjá um VAR vilja dæma rangstöðu. Þeir hljóta að beygja línurnar til að búa til rangstöður,“ sagði Henderson pirraður. 

Atvikin má sjá í meðfylgjandi frétt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert