Upplifir æskudrauminn í hverri viku (myndskeið)

Tom Davies, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Everton, var í ítarlegu viðtali við Bjarna Þór Viðarsson, lýsanda hjá Símanum Sport, á dögunum þar sem hann ræddi meðal annars tíma sinn hjá félaginu og framhaldið hjá enska félaginu. Everton hefur farið vel af stað eftir kórónuveiruhléið og er með fjögur stig af sex mögulegum úr fyrstu tveimur leikjum sínum.

Davies er 22 ára gamall en hann er fæddur og uppalinn í Liverpool og hefur stutt Everton alla sína tíð. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir félagið árið 2015, þá 17 ára gamall, en hann hefur byrjað á miðsvæðinu hjá liðinu í síðustu tveimur leikjum. Alls hefur hann byrjað 17 leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

„Þegar ég var ungur strákur var það alltaf draumur minn að spila fyrir Everton,“ sagði Davies. „Mér hefur tekist að láta þennan draum rætast og ég er minntur á það í hvert skipti sem ég geng inn á Goodison Park, heimavöll Everton. Ég er hrikalega stoltur af þessu afreki mínu og að spila fyrir Everton er nokkuð sem ég tek alls ekki sem sjálfsagðan hlut. Ég hef byrjað 98 leiki fyrir félagið og markmiðið er að sjálfsögðu að bæta við þann leikjafjölda.“

Everton er með 41 stig í tólfta sæti deildarinnar en Carlo Ancelotti tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í desember á síðasta ári og er markmiðið að berjast um Evrópusæti á næstu leiktíð.

„Við höfum byrjað vel eftir kórónuveiruhléið og það sem við þurfum að gera núna er að halda áfram að safna stigum. Það er ennþá langt í liðin í efstu sætum deildarinnar en að sjálfsögðu viljum við vera ofar í töflunni. Everton er félag sem vill spila í Evrópukeppnum og markmiðið fyrir næsta tímabil er að gera harða atlögu að Evrópusæti,“ sagði Tom Davies meðal annars í samtali við Bjarna Þór Viðarsson á Símanum Sport.

Everton tekur á móti Leicester í ensku úrvalsdeildinni í dag klukkan 17 og verður sá leikur í beinni útsendingu á Símanum Sport.

Tom Davies hefur stutt Everton allt sitt líf.
Tom Davies hefur stutt Everton allt sitt líf. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert