Hollenskur miðvörður til City?

Nathan Aké er lykilmaður í liði Bournemouth.
Nathan Aké er lykilmaður í liði Bournemouth. AFP

Nathan Aké, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Bournemouth, gæti gengið til liðs við Manchester City í sumar en það er The Athletic sem greinir frá þessu. Aké, sem er 25 ára gamall, hefur verið besti leikmaður Bournemouth, undanfarin ár, en hann gekk til liðs við félagið frá Chelsea árið 2017 eftir að hafa spilað sem lánsmaður hjá Bournemouth tímabilið 2016-17.

Aké hefur reglulega verið orðaður við brottför frá félaginu, undanfarin ár, en Leicester reyndi að fá leikmanninn síðasta sumar eftir að Harry Maguire var seldur til Manchester United fyrir metfé. Bournemouth vildi hins vegar ekki sætta sig við neitt minna en 85 milljónir punda fyrir hollenska miðvörðinn en Leicester var ekki tilbúið að borga þá upphæð.

The Athletic greinir einnig frá því að Chelsea gæti reynt að kaupa leikmanninn aftur á Stamford Bridge en talið er næsta víst að hann muni yfirgefa Bournemouth í sumar. Bournemouth er í harðri fallbaráttu en liðið er í átjánda og þriðja neðsta sæti deildarinnar með 27 stig þegar sjö leikir eru eftir af tímabilinu, einu stigi frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert