Besta í stöðunni að leiðir myndi skilja

Hermann Hreiðarsson hefur látið af störfum sem aðstoðarþjálfari Southend United.
Hermann Hreiðarsson hefur látið af störfum sem aðstoðarþjálfari Southend United. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sol Campbell lét af störfum sem þjálfari enska knattspyrnufélagsins Southend United í gær eftir að hafa stýrt liðinu frá því í lok október. Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði Íslands, var aðstoðarmaður Campbells hjá Southend United en liðið hefur verið í miklum fjárhagsvandræðum undanfarna mánuði.

Eftir að kórónuveirufaraldurinn skaut upp kollinum í Evrópu þyngdist róðurinn enn frekar fyrir þá félaga og í gær var tilkynnt að Campbell ásamt öllu þjálfarateyminu hefði ákveðið að stíga til hliðar. Hermann ræddi málið við Valtý Björn Valtýsson á Sport FM í gær, en viðtalið er m.a. aðgengilegt í Mín skoðun á Spotify og byrjar á mínútu 67:00.

„Við vorum að vonast eftir því að geta byrjað að undirbúa liðið fyrir næsta tímabil,“ sagði Hermann í samtali við Sport FM. „Við erum í raun bara búnir að vera að bíða eftir svörum frá forráðamönnum félagsins um framtíðina og annað enda höfum við ekki mátt kaupa neina leikmenn frá því að við tókum við liðinu og höfum því ekki fengið inn einn einasta leikmann, nema Patrik Sigurð Gunnarsson sem kom á neyðarláni.

Þegar fer svo að styttast í undirbúningstímabilið og margir leikmenn liðsins með lausan samning. Við þurftum þess vegna að fara að gera eitthvað í þessu, ef það átti að reyna að búa til eitthvert lið þarna. Reyndir leikmenn hafa yfirgefið félagið í síðustu tveimur félagaskiptagluggum og hópurinn var því ansi ungur. Óvissan var því mikil og mikið af ungum leikmönnum í þokkabót þannig að það besta í stöðunni var að leiðir myndi skilja,“ sagði Hermann meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert