Solskjær getur andað léttar

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, getur andað léttar því allt bendir til þess að þrír fastamenn liðsins snúi til baka eftir meiðsli þegar United tekur á móti erkifjendum sínum í Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Paul Pogba, Aaron Wan-Bissaka og Luke Shaw séu allir búnir að hrista af sér meiðsli og séu klárir í slaginn og þá er mögulegt að Anthony Martial verði leikfær en franski sóknarmaðurinn hefur verið frá keppni vegna meiðsla síðustu vikurnar.

United er án sigurs í þremur deildarleikjum í röð og er í tólfta sæti deildarinnar aðeins tveimur stigum frá fallsæti. Liverpool hefur hins vegar verið á mikilli siglinu. Liðið hefur unnið alla átta leiki sína í deildinni og er með átta stiga forskot á Manchester City í toppsæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert