Arsenal og Chelsea í úrslitaleik?

Alexandre Lacazette fagnar sigurmarki Arsenal í kvöld ásamt Sead Kolasinac.
Alexandre Lacazette fagnar sigurmarki Arsenal í kvöld ásamt Sead Kolasinac. AFP

Ensku liðin Arsenal og Chelsea tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta. Þar sem þau munu ekki mætast þar gætu þau orðið andstæðingar í úrslitaleik keppninnar í Bakú í Aserbaídsjan í lok maí.

Arenal vann Napoli öðru sinni, nú 1:0 á Ítalíu og 3:0 samanlagt. Alexandre Lacazette skoraði sigurmarkið á 36. mínútu.

Chelsea vann Slavia Prag 4:3 í fjörugum leik á Stamford Bridge og 5:3 samanlagt. Chelsea komst í 3:0 og 4:1 í fyrri hálfleiknum í kvöld. Pedro skoraði tvö mörk og Olivier Giroud eitt og Tékkarnir gerðu sjálfsmark. Petr Sevcik skoraði tvívegis fyrir Slavia í síðari hálfleik en áður hafði Tomás Soucek skorað fyrsta mark þeirra.

Valencia vann uppgjör spænsku liðanna gegn Villarreal 2:0 og þar með 5:1 samanlagt. Toni Lato og Daniel Parejo skoruðu mörkin.

Eintracht Frankfurt er fjórða liðið í undanúrslitum en Þjóðverjarnir unnu Benfica 2:0 í Frankfurt í kvöld. Benfica vann fyrri leikinn 4:2, liðin voru því jöfn samanlagt 4:4 en Eintracht fer áfram á útimörkunum. Filip Kostic og Sebastian Rode skoruðu mörkin.

Í undanúrslitunum leikur Arsenal við Valencia og Chelsea við Eintracht Frankfurt en leikið er 2. og 9. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert