Palace og Swansea í átta liða úrslit

Crystal Palace er komið áfram eftir sigur á Doncaster.
Crystal Palace er komið áfram eftir sigur á Doncaster. AFP

Crystal Palace og Swansea eru komin áfram í átta liða úrslit enska bikarsins í fótbolta eftir sigra í 16-liða úrslitunum í dag. Swansea vann sannfærandi 4:1-sigur á Brentford á meðan Crystal Palace hafði betur á móti C-deildarliði Doncaster. 

Það tók Crystal Palace aðeins átta mínútur að komast yfir á móti Doncaster á útivelli. Jeffrey Schlupp skoraði þá af stuttu færi eftir skemmtilega sókn og í uppbótartíma bætti Max Mayer við marki. 

Doncaster var ekki líklegt til að jafna leikinn eftir það og öruggur 2:0-sigur úrvalsdeildarliðsins staðreynd. 

Swansea og Brentford leika bæði í B-deildinni og það voru gestirnir í Brentford sem skoruðu fyrst. Ollie Watkins gerði það og sá til þess að staðan væri 1:0, Brentford í vil, í hálfleik. 

Swansea var mikið sterkari aðilinn í síðari hálfleik hins vegar og Luke Daniels jafnaði metin með sjálfsmarki á 49. mínútu og aðeins fjórum mínútum síðar kom Daniel James Swansea yfir. 

Bersant Celina og George Byers bættu svo við þriðja og fjórða marki Swansea og gulltryggðu öruggan sigur. Ezri Konsa fékk beint rautt spjald hjá Brentford á 61. mínútu er hann var aftastur í vörninni og braut af sér. 

Chelsea og Manchester United mætast á morgun í síðasta leik 16 liða úrslitanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert