Wenger hættir hjá Arsenal

Arsene Wenger er á lokametrunum sem knattspyrnustjóri Arsenal.
Arsene Wenger er á lokametrunum sem knattspyrnustjóri Arsenal. AFP

Arsene Wenger mun hætta sem knattspyrnustjóri Arsenal í sumar en þá lýkur 22 ára starfstíma hans hjá enska úrvalsdeildarfélaginu. Núgildandi samningur hans átti að renna út á næsta ári.

Þetta staðfestir Frakkinn í yfirlýsingu á heimasiðu Arsenal í dag. „Eftir vandlega umhugsun og í kjölfar viðræðna við félagið tel ég að nú sé rétti tíminn til þess að stíga til hliðar við lok þessarar leiktíðar,“ sagði Wenger.

Arsenal er í 6. sæti úrvalsdeildarinnar og allt útlit fyrir að annað árið í röð endi liðið ekki meðal efstu fjögurra í deildinni. Liðið á hins vegar enn von um að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð því það er komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar.

Wenger, sem er 68 ára gamall, hefur í þrígang stýrt Arsenal til Englandsmeistaratitils og sjö sinnum til sigurs í ensku bikarkeppninni. Liðið vann þar á meðal tvöfalt árin 1998 og 2002.

„Ég er þakklátur fyrir að hafa notið þeirra forréttinda að starfa fyrir félagið í svona mörg eftirminnileg ár. Ég lagði allt mitt í að stýra félaginu og stýrði því af heilindum,“ sagði Wenger.

Wenger tók við Arsenal 1. október 1996 og hefur stýrt liðinu í 823 leikjum sem er met.

Ekki er ljóst hver tekur við starfi Wengers. Stan Kroenke, eigandi Arsenal, hvetur stuðningsmenn til að fylkja sér að baki stjóranum í síðustu leikjum tímabilsins.

„Við höfum mikinn metnað fyrir því að byggja ofan á stórkostlega valdatíð Arsenes og sýna hugsjónum hans virðingu með því að sjá til þess að Arsenal keppi um og vinni stærstu og mikilvægustu verðlaunin í þessari íþrótt,“ sagði Kroenke.

„Nú verðum við að einbeita okkur að því að ljúka tímabilinu vel og biðjum þær milljónir stuðningsmanna sem félagið á um allan heim að sameinast í að votta einum þeim besta í sögu Arsenal, og í sögu fótboltans, tilhlýðilega virðingu,“ sagði Kroenke.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert