Ferguson dásamar Wenger

Arsene Wenger og Sir Alex Ferguson á góðri stundu árið …
Arsene Wenger og Sir Alex Ferguson á góðri stundu árið 2004. Reuters

Sir Alex Ferguson fór lofsamlegum orðum um Arsene Wenger knattspyrnustjóra Arsenal í tilefni þess að tilkynnt var í morgun að Wenger myndi láta af störfum hjá Arsenal í sumar.

Eftirfarandi ummæli eru höfð eftir Ferguson í dag. „Ég er ánægður með að hann skuli tilkynna ákvörðun sína á þessu tímapunkti á leiktíðinni og þá verður hægt að kveðja hann með þeim hætti sem hann á skilið.

Hann er án nokkurs vafa einn af bestu knattspyrnustjórum sem starfað hafa í ensku úrvalsdeildinni og ég er stoltur af því að hafa verið keppinautur, kollegi og vinur slíks stórmennis.

Að hafa verið í tuttugu og tvö ár í starfi sem hann elskar er góður vitnisburður um hæfileika, fagmennsku og viljastyrk.“

Fáir knattspyrnustjórar hafa verið eins lengi hjá sama félaginu og þessir tveir. Skapaðist með þeim ágætur vinskapur með tímanum. Tæmdu þeir gjarnan rauðvínsflösku í sameiningu á skrifstofu Ferguson eftir að lið þeirra mættust á Old Trafford. 

Um tíma minnkuðu samskiptin talsvert eftir atvikið umtalaða þegar leikmaður Arsenal kastaði pizzusneið í bakið á Ferguson fyrir utan búningsklefa Arsenal. Ferguson þótti Wenger ekki taka nægilega vel á því máli en samskipti þeirra bötnuðu á ný.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert