Stjórarnir ræddu galla myndbandsdómgæslu á hliðarlínunni

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Myndbandsdómgæsla (e. VAR) er ekki fyrir alla og fengu knattspyrnustjórarnir José Mourinho hjá Manchester United og David Wagner hjá Huddersfield að kynnast aukaverkunum hennar í gær er liðin mættust í enska bikarnum þar sem United hafði betur 2:0 með tveimur mörkum frá Romelu Lukaku.

Flestir héldu að forysta United í hálfleik yrði 2:0 þar sem Juan Mata skoraði að því er virtist fullkomlega löglegt mark. Myndbandsdómgæslan var aftur á móti notuð og var Spánverjinn úrskurðaður naumlega rangstæður.

Óhætt er að segja að sekúndurnar eða mínúturnar jafnvel sem líða er dómarar leiksins skera úr um hvort atvik skulu standa sé ný reynsla fyrir knattspyrnuáhugafólk.

„Hvað svo sem verður ákveðið, og hvort það verði okkur í hag eða ekki, þá líkar mér þetta ekki,“ voru orð Þjóðverjans Wagner til Mourinho í gær á meðan dómararar réðu ráðum sínum.

David Wagner er á móti myndbandsdómgæslu.
David Wagner er á móti myndbandsdómgæslu. AFP

„Það er verið ýta út öllum tilfinningum í leiknum. Tilfinningum fólksins uppi í stúku og okkar knattspyrnustjóranna á hliðarlínunni. Þess vegna líkar mér ekki við þetta kerfi. Kannski er ég of íhaldssamur,“ sagði Wagner eftir leik.

Mourinho tók í sama streng. „Við skoruðum mark en ég get ekki verið glaður. David [Wagner] fær á sig mark en veit ekki hvort hann fer inn í hálfleikinn með 2:0- eða 1:0-stöðu. Það tekur tíma fyrir ákvörðunina að koma,“ sagði Mourinho sem var sjálfur ekkert of hrifinn af myndbandsdómgæslunni í gær þrátt fyrir að fagna því að tækninýjungar séu nýttar í knattspyrnunni.

„Það er magnað hvernig sannleikurinn getur verið,“ sagði Portúgalinn.

„En það eru líka vandamál við þetta og eitt þeirra birtist í dag [í gær] sem gengur aðeins gegn vinnureglunum,“ sagði Mourinho en þær kveða á um að notast eigi við myndbandstæknina þegar um skýr og augljós mistök er að ræða.

„Atvikið í dag var hvorki skýrt né augljóst,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert