Skiptar skoðanir á breytingunum hjá Klopp

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Skiptar skoðanir eru á þeim tíðu breytingum sem Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool, hefur gert á byrjunarliði á tímabilinu. Enginn annar knattspyrnustjóri kemst nálægt öllum þeim breytingum sem Klopp hefur gert. Klopp hefur gert 65 breytingar á liðinu en næst kemur Antonio Conte hjá Chelse með 42.

Phil Neville, sparkspekingur og fyrrverandi leikmaður Everton, segist hins vega telja að Klopp sé að breyta rétt. Fyrir leikinn gegn Everton um síðustu helgi gerði Klopp sex breytingar þar sem liðið gerði jafntefli. Var hann þar með menn eins og Philippe Coutinho og Roberto Firmino á bekknum. Í miðri viku gerði liðið svo jafntefli gegn West Bromwich á sterkasta liði Liverpool.

„Leikstíllinn hans gerir honum það ómögulegt að breyta ekki liðinu regulega. Ég er sammála því sem hann er að gera. Hann tók smá áhættu gegn Everton. En Liverpool réð lögum og lofum á vellinum. Svo fékk Everton víti,“ sagði Neville á vef Sky.

„Svo á móti WBA, þá spilaði hann á sínu sterkasta liði þar sem þeir gerðu aftur jafntefli,“ sagði Neville.

„Í þessum þremur eða fjórum leikjum þar sem hann breytti liðinu ört og þeir náðu inn góðum úrslitum þá sagði enginn neitt. Hann verður að ganga úr skugga um að í hans bestu leikmenn verði klárir í slaginn í desember og janúar,“ sagði Neville og bætti því við að mánuðirnir í fyrra hefðu verið Liverpool erfiðir vegna meiðsla lykilmanna. Nefndu margir álag í því samhengi.

Matthew Upson, fyrrverandi leikmaður Arsenal, var ekki sammála en þeir ræddu saman í þættinum The Debate.

„Ég er ekki fyrir svona miklar breytingar. Ef þú horfir á þau lið sem hafa unnið titla og hafa verið sigursæl þá hafa þau haft stöðuga hryggjarsúlu í liðinu, liðsuppstillingu og starfslið,““ sagði Upson.

„Ég spilaði minn besta bolta þegar ég vissi að ég myndi ekki missa af neinum leik. Ég undirbjó mig þannig að ég myndi spila hvern einasta leik og komst í mitt besta form,“ sagði Upson.

Phil Neville í leik með Everton árið 2013.
Phil Neville í leik með Everton árið 2013. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert