Zlatan telur United geta unnið allt

Zlatan Ibrahimovic lét til sín taka í endurkomunni um helgina.
Zlatan Ibrahimovic lét til sín taka í endurkomunni um helgina. AFP

Zlatan Ibrahimovic sneri aftur á knattspyrnuvöllinn um helgina með Manchester United eftir að hafa slitið krossband í hné síðasta vor. Hann á von á góðu tímabili á Old Trafford.

Hinn 36 ára gamli Svíi segir að United sé með hóp til þess að berjast um alla titla á leiktíðinni. Auk hans sneru Paul Pogba og Marcus Rojo aftur í 4:1-sigrinum á Newcastle um helgina og Zlatan á von á því að United geti unnið upp átta stiga forskot Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

„Við getum náð City, af hverju ekki? Við viljum vinna allt og við erum með hópinn í það. Ég reyni að hjálpa eins mikið og ég get og Paul [Pogba] sneri aftur og spilaði eins og hann hefði ekki verið meiddur í mánuð,“ sagði Zlatan.

„Stjórinn hefur verið mjög glaður í þessari viku enda getur hann teflt fram öllum leikmannahópnum í fyrsta sinn á tímabilinu. Ég held að við eigum möguleika á að vinna allt. Við unnum tvo titla á síðustu leiktíð en erum sterkari í ár. Ég hef trú á okkur,“ sagði Zlatan, en hann sneri aftur um mánuði á undan áætlun.

„Það er frábært að spila aftur. Ég er þakklátur að geta hlaupið og verið í fótboltanum á ný. Eina leyndarmálið mitt er að leggja hart að mér. Ég hef unnið fimm til sex tíma á dag í endurhæfingunni og ég ætlaði aldrei að gefast upp,“ sagði Zlatan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert