Klopp er kominn með upp í kok

Jürgen Klopp hundsvekktur í gærkvöldi.
Jürgen Klopp hundsvekktur í gærkvöldi. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er kominn með nóg af því hvernig mörk liðið fær á sig. Liverpool tapaði fyrir Leicester í gærköld og er úr leik í enska deildabikarnum.

Liverpool hefur ekki haldið hreinu í nema tveimur leikjum á tímabilinu og í síðustu fjórum leikjum hefur liðið fengið á sig tíu mörk. Liverpool hefur ekki unnið í síðustu þremur leikjum.

Í fyrri hálfleik í gær hafði liðið mikla yfirburði. Þrátt fyrir það gekk liðinu ekkert að reka endahnútinn á færin sem sköpuðust og var refsað fyrir það eftir hlé. Klopp er vægast sagt ósáttur við mörkin.

„Leicester náði einhvern veginn að lifa fyrri hálfleikinn af því við vorum ekki nógu beittir uppi við markið. Það þarf að halda einbeitingu til enda en við leyfðum þeim að skora of auðveld mörk. Ég er kominn með alveg nóg af því að fá á mig svona mörk,“ sagði Klopp og hélt áfram.

„Eftir að Leicester komst yfir sást að þeir tvíefldust og það breytti leiknum. Það var augnablikið og að fá á okkur svona mörk lætur mig fá alveg upp í kok,“ sagði Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert