„Lítur ekki vel út í augnablikinu“

Gylfi Þór og Wayne Rooney ræða saman áður en síðari …
Gylfi Þór og Wayne Rooney ræða saman áður en síðari hálfleikurinn hófst á Old Trafford í gær. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson segir að lið Everton sé meira en nógu gott til að snúa við blaðinu en hvorki hefur gengið né rekið hjá Gylfa og samherjum hans í Everton-liðinu síðustu vikurnar.

Gylfi segir á vef Everton að þrátt fyrir tapið á móti Manchester United í gær hafi sést batamerki á liðinu en Everton hefur nú tapað fjórum leikjum í röð án þess að skora mark og er í fallsæti í ensku úrvalsdeildinni.

„Við verðum að standa saman, vera jákvæðir og halda áfram. Margir af okkur hafa verið í þessari stöðu áður þar sem hlutirnir hafa ekki fallið með okkur. Þetta lítur ekki vel út í augnablikinu en við vitum að við erum nógu góðir til að snúa þessari þróun við. Við munum snúa þessu við, leikmenn og þjálfarateymið,“ segir Gylfi Þór.

Næsti leikur Everton er á miðvikudagskvöldið en þá tekur liðið á móti B-deildarliðinu Sunderland í ensku deildabikarkeppninni og á laugardaginn fær Everton lið Bournemouth í heimsókn í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert