Mourinho nefndi Gylfa sérstaklega

José Mourinho með tilburði á hliðarlínunni í dag.
José Mourinho með tilburði á hliðarlínunni í dag. AFP

Gylfa Þór Sigurðssyni tókst ekki að skora fjórða tímabilið í röð á Old Trafford, heimavelli Manchester United, en José Mourinho, stjóri liðsins, nefndi sérstaklega Gylfa Þór í viðtali eftir 4:0 sigur Manchester United á Everton í ensku úrvalsdeildinni.

Manchester United gerði nefnilega jafntefli við Swansea, 1:1, á síðustu leiktíð þar sem Gylfi Þór jafnaði metin úr aukaspyrnu. Mourinho mundi vel eftir því.

Sjá frétt mbl.is: Skor­ar Gylfi fjórða árið í röð?

„Þeir fengu ekki mikið, en fengu samt nokkur færi. Það er alltaf hætta á móti gæðaleikmönnum eins og Everton er með. Mér var hugsað til Swansea með [Gylfa] Sigurðsson sem skoraði úr aukaspyrnu á lokamínútunum og leikurinn endaði 1:1. Þetta er sami Sigurðsson,“ sagði Mourinho í viðtali eftir leik við enska fjölmiðla og sagðist ekki hafa verið rólegur fyrr en Henrikh Mkhitaryan skoraði annað mark liðsins.

Everton hefur ekki skorað í þremur leikjum í röð og hefur aðeins fjögur stig í 18. sæti deildarinnar. Mourinho hefur þó ekki áhyggjur af því.

„Þetta verður allt í góðu hjá Everton en liðið er að fara í gegnum erfitt skeið núna. Leikirnir sem liðið hefur spilað. Ég myndi ekki vilja hafa spilað alla þessa leiki á sama tíma. Ég myndi vilja einn leik gegn topp-fimm liði en ekki gegn þeim öllum,“ sagði Mourinho eftir leik en Everton hefur spilað við Stoke, Manchester City, Chelsea, Tottenham og nú síðast Manchester United auk þess að vera í Evrópudeildinni. Þess á milli spilaði Gylfi Þór t.d. fyrir Ísland gegn Finnlandi og Úkraínu í undakeppni HM sem sýnir hversu gríðarlegt álag hefur verið á Gylfa og félögum.

„Mér fannst frammistaðan í dag mjög góð, sérstaklega fyrstu 30-35 mínúturnar, sem voru líklega þær bestu hjá okkur á tímabilinu,“ sagði Mourinho.

„Við pressuðum þá og gáfum ekki færi á okkur. Þeir náðu ekki skoti, sem var ansi tilkomumikið. Eftir það sýndu hins vegar leikmenn Everton sín gæði. Þeir ollu okkur vandræðum og þá kíkti ég á bekkinn og fór að huga að öðrum möguleikum í stöðunni,“ sagði Mourinho.

„Það er nú komið í tísku í úrvalsdeildinni að spila með fimm leikmenn í vörn. Besta leiðin gegn því er að spila sjálfur með fimm leikmenn í vörn. Ef þú spilar ekki með samsvarandi hætti og andstæðingurinn þinn þá tekurðu áhættu. Þessa vegna spiluðum við með þrjá fremsta plús Henrikh Mkhitaryan. Þú þarft að gera út um leikinn og gefa fá færi á þér. Það kom augnablik þar sem mér fannst við ekki ná því og því setti ég Ander Herrera inn á. Þegar seinna markið kom hjá okkur var þetta búið spil,“ sagði Mourinho.

Gylfi Þór sendir boltann í dag.
Gylfi Þór sendir boltann í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert