Skorar Gylfi fjórða árið í röð?

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton, í baráttu við Mousa Dembele …
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton, í baráttu við Mousa Dembele ásamt Tom Davies, samherja Gylfa Þórs hjá Everton. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans hjá Everton mæta Manchester United á Old Trafford í fimmtu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á morgun. Gylfi Þór hefur átt góðu gengi að fagna á Old Trafford síðustu þrjú keppnistímabil, en hann hefur skorað fyrir Swansea City á þeim velli í síðustu þrjú skipti sem hann hefur spilað þar.

Gylfi Þór tryggði Swansea City mikilvægt stig í fallbaráttu liðsins þegar liðið mætti Manchester United á Old Trafford síðustu leiktíð. Gylfi Þór jafnaði metin með glæsilegu marki sínu beint úr aukaspyrnu, en leiknum lyktaði með 1:1-jafntefli.

Everton hefur verið að ganga í gegnum erfiðan tíma, en liðið hefur ekki haft betur í síðustu fimm leikjum sínum. Everton gerði jafntefli við Manchester City í deildinni og gerði sömuleiðis jafntefli við Hajduk Split í forkeppni Evrópudeildarinnar þar sem Gylfi Þór skoraði sitt fyrsta mark fyrir Everton.

Þar á eftir fylgdu töp gegn Chelsea og Tottenham Hotspur í deildinni og síðan ósigur gegn Atalanta í fyrstu umferð riðlakeppninnar í Evrópudeildinni. Everton er í 17. sæti deildarinnar með fjögur stig fyrir leik liðsins gegn Manchester United.

Leikur Manchester United og Everton sem hefst klukkan 15.00 á morgun verður í beinni textalýsingu á mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert