Klopp pirraður á umræðu um vörnina

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, virðist vera orðinn þreyttur á umræðunni um vörnina hjá Liverpool og kom sínum öftustu mönnum til varnar í enskum fjölmiðlum.

Liverpool mistókst að kaupa varnarmanninn Virgil van Dijk frá Southampton í sumar, og sú ákvörðun forráðamanna Liverpool um að styrkja liðið ekki með miðverði í sumar, hefur enn frekar verið gagnrýnd að undanförnu eftir 5:0 tap gegn Manchester City og 2:2 jafntefli við Sevilla í Meistaradeild Evrópu, en bæði mörkin í síðarnefnda leiknum komu eftir slakan varnarleik.

„Þið ættuð að prófa að spyrja fólk um þessa leikmenn. Spyrja hvað hinir klúbbarnir segja um þessa varnarmenn og hvort þeir myndu vilja fá þá. Það kæmi ykkur á óvart,“ sagði Klopp á vefsíðu Liverpool Echo.

Spurður hvort Kalidou Koulibaly, leikmaður Napoli, eða Davinson Sanchez, sem gekk á endanum í raðir Tottenham, hefðu styrkt leikmannahóp Liverpool sagði Klopp: „Nei. Við horfðum á þá alla 500 milljón sínn,“ sagði Klopp.

„Það þarf bara að róa fólk niður. Hvað gerist ef nýr leikmaður hittir ekki fyrsta bolta (eins og Dejan Lovren gerði gegn Sevilla) og gerir nákvæmlega sömu mistök? Mistök sem þeir hafa gert allt sitt líf, en hugsunarhátturinn er sá að ef hann kostar 65 milljónir punda, þá muni hann bæta sig,“ sagði Klopp.

„Af hverju haldiði þá að hinn geti ekki bætt sig? Ég skil þetta ekki. Við viljum taka réttar ákvarðanir. Stór hluti af fótbolta og lífinu er að hafa trú á fólkinu sem þú vinnur með. Treysta því - vegna þess að allir geta bætt sig,“ sagði Klopp.

„Ég trúi á traust. Ég treysti fólki þangað til það gefur mér tækifæri eða möguleika á að treysta því ekki lengur. Þannig horfi ég á lífið,“sagði Klopp, aðspurður hvort hann treysti of mikið á núverandi leikmannahóp Liverpool.

Spurður um mistökin í markinu hjá Dejan Lovren sagði Klopp: „Dejan er ekki 18 ára lengur. Hann er maður, faðir tveggja barna. Hann getur höndlað þetta. Ég hef séð menn gera mun stærri mistök,“ sagði Klopp.

Liverpool mætir Burnley í ensku úrvalsdeildinni kl. 14:00 í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert