Agüero upp að hlið Hasselbank

Sergio Agüero skoraði þrennu fyrir Manchester City gegn Watford í …
Sergio Agüero skoraði þrennu fyrir Manchester City gegn Watford í dag. AFP

Argentínski landsliðsframherjinn Sergio Agüero skoraði þrennu þegar Manchester City burstaði Watford, 6:0, í fimmtu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag.

Manchester City komst á topp deildarinnar með þessum sigri, en liðið er með 13 stig eftir þennan sigur og hefur þriggja stiga forskot nágranna sína, Manchester United, sem á þó leik til góða. 

Agüero hefur nú skorað 127 mörk í deildinni, en hann komst upp að hlið Jimmy Floyd Hasselbank á listanum yfir markahæstu erlendu leikmennina í sögu deildarinnar með mörkunum þremur í dag.

Hasselbank skoraði mörkin 127 í treyju Leeds United, Chelsea, Middlesbrough og Charlton Athletic. Hasselbank lagði skóna á hilluna árið 2008. en hann er knattspyrnustjóri Northampton Town í dag.  

Agüero á nokkuð í land með að komast upp fyrir Thierry Henry, fyrrum leikmann Arsenal, sem trónir á toppi listans með 175 mörk, en næstur á eftir franska framherjanum er Robin van Persie sem skoraði 144 mörk fyrir Arsenal og Manchester United.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert