Var Mourinho en ekki Pogba

Romelu Lukaku.
Romelu Lukaku. AFP

Belgíski framherjinn Romelu Lukaku segir að hann hafi ekki getað hafnað því tækifæri að ganga í raðir Manchester United eftir að hafa heyrt plön José Mourinho um það hvernig hann ætlar að endurbyggja liðið.

Chelsea var talið líklegast til að fá Lukaku frá Everton í sumar en það fór svo að hann fór til Manchester United sem greiddi fyrir hann 75 milljónir punda og sú upphæð getur endað í 90 milljónum punda.

Mourinho var við stjórnvölinn hjá Chelsea þegar hann gaf grænt ljós á að selja Lukaku til Everton en nú þremur árum síðar hafa þeir endurnýjað kynnin.

Paul Pogba, miðjumaður Manchester United, er góður vinur Lukaku og þegar tilkynnt var um félagaskipti Belgans til Manchester United birtist myndskeið á samfélagsmiðlum af þeim saman í Los Angeles.

Lukaku segir að áhrif Mourinho frekar en Pogba hafi sannfært hann um að ganga í raðir Manchester United.

„Við vorum bara í fríi saman en að lokum varð ég að taka mína eigin ákvörðun. Það voru viðræðurnar sem ég átti við knattspyrnustjórann sem virkilega sannfærðu mig mest. Hvernig hann vill endurbyggja liðið og vill að ég verði hluti af því,“ segir Lukaku í viðtali við vef Sky Sports.

Lukaku hefur farið vel af stað með Manchester United en hann skoraði tvö mörk í æfingaferð liðsins til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert