Giggs hleður Gylfa Þór lofi

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu …
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu gegn Króatíu. mbl.is/Golli

Framtíð Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Swansea City er í lausu lofti eftir að hann neitaði að ferðast með liðinu í æfingaferð til Bandaríkjanna í vikunni. Gylfi Þór hefur þráfaldlega verið orðaður við Everton undanfarið og Ryan Giggs telur að fyrrum liðsfélagi sinn hjá Manchester United, Wayne Rooney, og Gylfi Þór gætu myndað eitrað framherjapar hjá Everton. 

„Gylfi Þór og Rooney myndu spila saman í framlínu Everton ef kaupin á Gylfa Þór ganga í gegn. Góðir leikmenn gera hvorn annan betri og það á svo sannarlega við í tilfelli Gylfa Þórs og Rooney,“ sagði Giggs í samtali við WalesOnline.

„Gylfi Þór hefur verið afar mikilvægur hluti af liði Swansea City síðustu leiktíðir og það má auðveldlega færa rök fyrir því að Swansea City hefði fallið á síðustu leiktíð ef Gylfa Þórs hefði ekki notið við,“ sagði Giggs um mikilvægi Gylfa Þórs hjá Swansea City.

„Gylfi Þór tekur frábærar aukaspyrnur og hornspyrnur, en hann getur bæði skapað usla í föstum leikatriðum fyrir aðra og skorað sjálfur. Gylfi Þór er skapandi leikmaður sem sífelld ógn er af og þar að auki er hann ákaflega vinnusamur,“ sagði Giggs enn fremur um Gylfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert