Coutinho hefur aldrei verið til sölu

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var ekkert of sáttur með spurningar blaðamanna í Hong Kong þar sem hann er staddur ásamt liði sínu í æfingaferð.

Spurður um framtíð Brasilíumannsins Philippes Coutinhos svaraði Klopp: „Þetta er áhugaverð spurning þar sem þú veist svar mitt nú þegar,“ sagði Klopp á Sky Sports og sagðist svo ekki hafa neitt að segja um málið.

„Gerið það sem þið viljið með þessar fréttir, ég hef ekki áhuga. En það sem ég get sagt er að það er rökrétt að halda hópnum saman,“ sagði Klopp á vefsíðu Sky Sports en að sögn heimildamanna fréttastofunnar er Barcelona reiðubúið að greiða meira en 70 milljónir punda fyrir leikmanninn.

Þráspurður um það hvort Cotinho væri ekki alveg örugglega ekki til sölu sagði Klopp: „Já. Það er það sem þið getið sagt. En þetta er ekkert nýtt, ég er ekki viss um að staðan hafi verið eitthvað öðruvísi [á neinum tímapunkti],“ sagði Klopp og Coutinho því augljóslega ekki til sölu.

Philippe Coutinho skoraði 13 mörk á síðustu leiktíð og átti sjö stoðsendingar í 31 leik fyrir Liverpool en meiðsli gerðu að verkum að hann missti af nokkrum leikjum.

„Phil er mjög, mjög mikilvægur leikmaður. En við þurfum að bregðast betur við þegar hann er ekki á vellinum. [...] Hann missti af nokkrum leikjum [á síðustu leiktíð] og þegar hann kom til baka var hann ekki í sínu besta formi og komst ekki í réttan takt.

Þar sem hann hefur gæðin, þá er pressan á honum að framkvæma hlutina á vellinum. Við þurfum að gera betur í þessum aðstæðum,“ sagði Klopp en ítrekaði mikilvægi Brasilíumannsins, að hann væri enn ungur og gæti því bætt sig og að enginn efaðist um hæfileika hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert