Markið átti ekki að standa

Antonio Conte.
Antonio Conte. AFP

„Byrjunin hjá okkur var ekki góð en markið átti ekki að standa,“ sagði Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, eftir 2:1 tap gegn Arsenal í úrslitaleik enska bikarsins.

„Mér fannst fyrsta markið mjög skrýtið,“ sagði Conte og skildi ekki af hverju dómarinn flautaði ekki hendi á Alexis Sánchez á upphafsmínútum leiksins en hann skoraði eftir að hafa handleikið boltann fyrsta mark leiksins.

„Hvort um rangstöðu hafi verið að ræða skiptir ekki máli. Leikmaðurinn tekur boltann með höndum,“ sagði Conte.

„Rauða spjaldið var einnig vendipunktur. Ég sá atvikið ekki í sjónvarpinu og það var erfitt að sjá þetta,“ sagði Conte um rauða spjaldið sem Viktor Moses fékk eftir leikaraskap. Hann var þó ekki mjög óánægður með kappann og sagði hann hafa leikið mikilvægt hlutverk á leiktíðinni.

Conte hrósaði einnig Arsenal.

„Arsenal byrjaði mjög vel og liðið var mjög ákveðið. Þeir komu okkur aðeins á óvart, en ég endurtek, fyrstu 25 mínúturnar voru ekki góðar af okkar hálfu,“ sagði Conte.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert