Gylfi bestur hjá tveimur blaðamönnum Guardian

Gylfi Sigurðsson.
Gylfi Sigurðsson. AFP

Tveir af sparkspekingum breska blaðsins Guardian útnefna Gylfa Þór Sigurðsson sem besta leikmann tímabilsins í uppgjöri blaðsins um ensku úrvalsdeildina sem lauk á sunnudaginn.

„Átti beinan þátt í 22 af 43 mörkum liðsins í deildinni. Fyrir leikmann sem stöðugt er að búa til og skora svona mörg mörk í liði sem hefur átt í fallbaráttu allt tímabilið er eitthvað,“ segir Stuart James, fótboltablaðamaður hjá Guardian, í umsögn sinni um Gylfa.

„Íslenski landsliðsmaðurinn kom næstum því að helmingi marka Swansea á tímabilinu og án hans hefði liðið einfaldlega fallið úr deildinni,“ segir Sachin Nakrani í umsögn sinni um Gylfa.

Gylfi skoraði 9 mörk og lagði upp 13 í leikjum Swansea í deildinni á tímabilinu og var útnefndur leikmaður ársins hjá velska liðinu annað árið í röð af leikmönnum og stuðningsmönnum félagsins.

Gylfi Þór á þrjú ár eftir af samningi sínum við Swansea en fregnir bárust af því í enskum fjölmiðlum í morgun að Everton hafi náð samkomulagi við Swansea um kaup á Gylfa fyrir 25 milljónir punda. Engar staðfestar fréttir hafa hins vegar borist af væntanlegum vistaskiptum leikmannsins en áhuginn er mikill hjá Everton að fá hann í sínar raðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert