Það býr ekkert að baki

Mamadou Sakho.
Mamadou Sakho. AFP

Franski varnarmaðurinn Mamadou Sakho, sem er á mála hjá Liverpool en á láni hjá Crystal Palace hefur svarað fyrir umdeilda hegðun sína í sigri Crystal Palace á Liverpool í gær er hann fagnaði fyrra marki Christians Benteke.

Sakho, sem fékk ekki að spila í gær þar sem mótherjinn var Liverpool, stóð upp af bekknum og fagnaði með Benteke er hann jafnaði metin í 1:1, gaf honum fimmu og framkvæmdi með Belganum að því er virðist, þaulæft handaband.

Frétt mbl.is: Fagnaði marki Palace af bekknum

Sakho segir þó að það hafi nákvæmlega ekki verið neitt á bakvið við atriðið. „Það býr ekkert að baki,“ sagði Sakho. „Þegar Christian skoraði þá sat ég kyrr af því að ég vildi ekki fagna af virðingu við félagið sem ég tilheyri og af virðingu við stuðningsmennina,“ sagði Sakho í Liverpool Echo.

„Þegar hann kom til mín, þá stóð ég upp og heilsaði honum með handabandinu okkar, sem við vinirnir gerum alltaf,“ sagði Sakho.

„Það býr ekkert meira að baki. Þarna voru bara tveir vinir í sama liði með sama markmið, að ná þremur stigum í hverjum leik og ganga úr skugga um að liðið haldi sæti sínu í úrvalsdeildnni,“ sagði Sakho.

Sakho hefur ekki leikið með Liverpool í 12 mánuði en vandræði hans hjá félaginu hófst er hann var rekinn heim úr æfingaferð með liðinu síðasta sumar eftir ítrekuð agabrot. Sakho hefur verið mikið hrósað fyrir frammistöðu sína með Palace eftir að hann fór þangað á láni. Hann er ekki talinn eiga framtíð hjá Liverpool og allra síst eftir gærdaginn, en virðist þó reyna að halda í þá von með svari sínu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert