Blendnar tilfinningar í endurkomunni

Jóhann Berg Guðmundsson í fyrri leik Burnley gegn Crystal Palace …
Jóhann Berg Guðmundsson í fyrri leik Burnley gegn Crystal Palace á leiktíðinni. burnleyfootballclub.com

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, lék langþráðar mínútur þegar hann kom inná í tapi Burnley gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í gær. Jóhann Berg er vitanlega ánægður með að vera kominn aftur á ferðina eftir rúmlega fjögurra mánaða fjarveru.

„Þetta hefur verið erfiður tími og allt keppnistímabilið hef ég reglulega verið að glíma við meiðsli sem er mjög pirrandi. Ég er hæstánægður með að vera kominn aftur inná á völlinn og mun vinna í því í sumar að koma í veg fyrir að ég verði jafn mikið frá vegna meiðsla á næsta tímabili. Ég vil spila alla leik og ætla mér að gera allt sem ég get til þess að þetta verði byrjun á löngum kafla án meiðsla,“ sagði Jóhann Berg í samtali við heimasíðu Burnley.

Burnley er í 16. sæti deildarinnar með 36 stig þegar liðið á fjóra leiki eftir, en liðið er fimm stigum frá Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum hans hjá Swansea City sem sitja í efsta fallsætinu eins og sakir standa. Falldraugurinn svífur því enn yfir vötnum í herbúðum Burnley.

„Þetta voru svekkjandi úrslit, sérstaklega þegar litið er til þess að við höfum verið sterkir á heimavelli á leiktíðinni. Næsti leikur er á útivelli gegn Crystal Palace sem er á svipuðum slóðum og við. Við höfum spilað vel á útivelli á leiktíðinni, en ekki náð að hala inn nógu mörgum stigum. Vonandi get á hjálpað til við að breyta því og lagt mitt af mörkum með liðsfélögum til þess að ná í þrjú stig,“ sagði Jóhann Berg um framhaldið hjá Burnley.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert