Zlatan neitar að gefast upp

Zlatan Ibrahimovic liggur á vellinum eftir að hann lenti illa …
Zlatan Ibrahimovic liggur á vellinum eftir að hann lenti illa í leiknum við Anderlecht síðasta fimmtudagskvöld. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic segir að það sé alltof snemmt að afskrifa sig þó hann hafi slitið krossband í hné á dögunum og verði frá keppni það sem eftir lifir ársins 2017. 

Atvikið gerðist undir lok leiks Manchester United og Anderlecht í Evrópudeild UEFA síðasta fimmtudagskvöld en Zlatan lenti þá illa og ljóst var strax að hann væri mikið meiddur.

Talsverðar vangaveltur hafa verið um að þessi alvarlegu meiðsli gætu hæglega bundið endi á feril þessa 35 ára gamla sigursæla framherja en hann er á öðru máli, og sendi skýr skilaboð á Instagram í kvöld. Þau hljóða svona:

„Til að byrja með, takk fyrir allan stuðnininn og ástina.

Það eru engar nýjar fréttir að ég meiddist og verði af þeim sökum frá keppni um tíma.

Ég mun komast í gegnum þetta eins og allt annað og koma enn sterkari til baka. Ég hef spilað á öðrum fæti hingað til svo það ætti ekki að vera vandamál. Eitt er víst, ég mun ákveða sjálfur hvenær tími verður kominn til að hætta. Uppgjöf er ekki valkostur. Sjáumst fljótlega."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert