Skutu fimm sinnum og skoruðu fjögur

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, gefur skipanir á hliðarlínunni í …
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, gefur skipanir á hliðarlínunni í leik liðsins gegn Chelsea í dag. AFP

„Við vorum mun sterkari aðilinn í leiknum að mínu mati, en þeir voru skilvirkari í sínum aðgerðum en við. Ég er hins vegar stoltur af mínu liði þar sem við spiluðum vel og fylgdum þeirri leikaðferð sem sett var upp fyrir leikinn,“ sagði Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, í samtali við BBC eftir 4:2- tap liðsins gegn Chelsea í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla í dag. 

„Þeir áttu fimm skot á markið og skoruðu fjögur mörk á meðan við skoruðum einungis tvö mörk úr þeim fjölmörgu færum sem við fengum. Mér fannst vítaspyrnan sem þeir fengu ekki réttur dómur og það gerði okkur erfitt fyrir að vera undir í hálfleik. Mér fannst við eiga meira skilið úr þessum leik, en svona er fótboltinn,“ sagði Pochettino enn fremur.

„Við vorum að spila við eitt besta lið Evrópu í dag og það er engin skömm að því að tapa á þann hátt sem við gerðum í dag. Nú beinum við sjónum okkar að deildinni þar sem við erum fjórum stigum á eftir Chelsea. Við munum reyna að komast upp fyrir Chelsea meðan það er möguleiki. Við höfum stigið stór skref á þessu tímabili og munum halda áfram að gera atlögu að þeim titlum sem í boði eru í framhaldinu,“ sagði Pochettino um framtíðina hjá Tottenham Hotspur.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert