Mikilvægasti leikur United á tímabilinu

Leikmenn United fagna marki gegn Chelsea um síðustu helgi.
Leikmenn United fagna marki gegn Chelsea um síðustu helgi. AFP

Manchester United leikur í kvöld mikilvægasta leik sinn á tímabilinu til þessa þegar það tekur á móti belgíska liðinu Anderlecht í síðari viðureign liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

1:1 urðu úrslitin í Brüssel í síðustu viku svo Manchester-liðið er í sterkri stöðu fyrir leikinn í kvöld. José Mourinho, knattspyrnustjóri United, hefur ekki farið leynt með það að hann stefnir á að vinna Evrópudeildina og tryggja þar með liðinu farseðilinn í Meistaradeildina að ári.

„Að vinna Evrópudeildina yrði fullkominn endir fyrir okkur eftir erfitt tímabil,“ segir Mourinho en hans menn fara með gott sjálfstraust inn í leikinn eftir góðan sigur á Chelsea í deildinni um síðustu helgi.

Manchester United hefur ekki tapað Evrópuleik á Old Trafford síðan það tapaði fyrir Real Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar tímabilið 2012-13. Síðan þá hefur liðið unnið 13 leiki og gert 3 jafntefli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert