Með markverði í hæsta gæðaflokki

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist vera ánægður með markverði sína þá Simon Mignolet og Lois Karius og hann sé ekki að horfa til Joe Hart landsliðsmarkvarðar.

Hart, sem er í láni hjá Torino frá Manchester City, hefur á undanförnum dögum verið orðaður við Liverpool en Klopp segir ekkert vera til í því að Liverpool sé á höttunum eftir enska landsliðsmarkverðinum.

„Við erum alltaf að hugsa um liðið og markverðina. Joe Hart er frábær markvörður og er í hæsta gæðaflokki en við erum með markverði í hæsta gæðaflokki,“ sagði Klopp á vikulegum fréttamannafundi í dag.

Liverpool tekur á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Adam Lallana og Jordan Henderson eru enn á sjúkralistanum og verða ekki með liðinu í þeim leik. Klopp sagði að Lallana muni hefja æfingar í næstu viku en hann segir óvíst hvort Henderson leiki meira á þessu tímabili en fyrirliðinn hefur verið frá keppni vegna meiðsla síðan í febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert