Southampton með Gylfa í sigtinu að sögn Sky

Gylfi Þór Sigurðsson er eftirsóttur.
Gylfi Þór Sigurðsson er eftirsóttur. AFP

Enski fjölmiðlar halda áfram að orða Gylfa Þór Sigurðsson við önnur félög á Englandi en fram kemur á vef Sky Sports að Southampton ætli að gera atlögu að því að fá Gylfa í sínar raðir frá Swansea í sumar.

Southampton hefur lengi haft augastað á Gylfa, sem gerði nýjan fjögurra ára samning við Swansea City eftir Evrópumótið í Frakklandi í sumar.

Gylfi hefur þó mest verið orðaður við Everton en Ronald Koeman, stjóri liðsins, er reiðubúinn að kosta miklu til þess að fá íslenska landsliðsmanninn í sínar raðir og enskir fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að Everton sé tilbúið að tvöfalda laun leikmannsins og bjóða honum 140 þúsund pund á viku en sú upphæð jafngildir tæplega 20 milljónum króna.

Gylfi hefur skorað 8 mörk fyrir Swansea í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og hefur gefið 11 stoðsendingar en Swansea er í fallsæti, situr í þriðja neðsta sæti og berst fyrir lífi sínu. Liðið tekur á móti Stoke á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert