Tækifæri til að stíga inn á sviðið

Örnólfur Valdimarsson læknir landsliðsins, Ágúst Þór Jóhannsson aðstoðarþjálfari, Gunnar Magnússon …
Örnólfur Valdimarsson læknir landsliðsins, Ágúst Þór Jóhannsson aðstoðarþjálfari, Gunnar Magnússon aðstoðarþjálfari og Guðmundur Þ. Guðmundsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ágúst Þór Jóhannsson, annar af aðstoðarmönnum Guðmundar Þ. Guðmundssonar landsliðsþjálfara karla í handknattleik, hefur fulla trú á að markverðirnir Viktor Gísli Hallgrímsson og Ágúst Elí Björgvinsson standi fyrir sínu í næstu leikjum á EM í Búdapest. 

Ísland mætir Frakklandi í dag í mikilvægum leik í milliriðli I. „Það er auðvitað klárt mál að við þurfum að ná fram góðri frammistöðu. Frakkarnir hafa á að skipa mjög öflugu liði. Við þurfum að spila þéttan og góðan varnarleik. Við verðum að mæta skyttunum sem eru feikilega öflugar. Við þurfum að skila okkur vel til baka í vörnina því Frakkarnir eru hættulegir í hraðaupphlaupum og passa vel upp á boltann þegar við erum í sókn,“ sagði Ágúst Þór þegar mbl.is spjallaði við hann í Búdapest. 

Viktor Gísli Hallgrímsson í leiknum gegn Dönum.
Viktor Gísli Hallgrímsson í leiknum gegn Dönum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hann sér um að vinna með markvörðunum í íslenska hópnum og kom nýr inn í teymið fyrir EM. Áður var Hreiðar Levý Guðmundsson í því starfi til skamms tíma en undanfarin ár vann Svíinn Tomas Svensson með markvörðunum. Er Ágúst ánægður með markvörsluna hjá Íslendingum í mótinu?

„Já og nei. Frammistaðan hefur verið aðeins upp og ofan. Frammistaðan var ekki alveg nægilega góð á móti Dönum en fyrir utan þann leik hefur markvarslan verið fín á heildina litið. Við erum búnir að fara vel yfir leikinn gegn Dönum og setjum upp áætlun fyrir leikinn gegn Frökkum. Viktor og Gústi eru staðráðnir í að ná góðri frammistöðu gegn Frökkunum.“

Ágúst Elí Björgvinsson þakkar fyrir stuðninginn í Búdapest.
Ágúst Elí Björgvinsson þakkar fyrir stuðninginn í Búdapest. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hvaða áhrif hefur það að missa reyndan mann eins og Björgvin Pál sem nú er í einangrun?

„Björgvin er markmaður númer eitt og einn reyndasti maður í hópnum. Hann er feikilega öflugur liðsmaður, mikill karakter og mikil fyrirmynd. Auðvitað er slæmt að missa hann en þá skapast tækifæri fyrir Viktor og Ágúst að stíga inn á sviðið og grípa tækifærið. Ég er sannfærður um að þeir eigi eftir að standa sig vel í leikjunum fram undan. Þeir spila báðir í dönsku deildinni og hafa sýnt að þeir geta vel staðið sig. Við höfum fulla trú á þeim í framhaldinu,“ sagði Ágúst sem hefur reynslu af stórmótum sem landsliðsþjálfari kvenna en er nú í þjálfarateyminu í fyrsta skipti á stórmóti í karlaflokki.

„Auðvitað er bara gott að koma inn í þetta teymi enda er þar gríðarleg reynsla. Alveg frá Guðmundi yfir í Guðna liðsstjóra. Vinnan í kringum þetta er mjög fagleg og öflug. Ég reyni að koma með einhverja punkta og aðstoða þá eftir fremsta megni. Guðmundur og Gunnar eru feikilega færir þjálfarar og það sést nú best á spilamennskunni hjá liðinu,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert