Stærsta tapið í sögu Frakka

Ómar Ingi Magnússon fór á kostum í leiknum.
Ómar Ingi Magnússon fór á kostum í leiknum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ísland vann stórglæsilegan 29:21-sigur á Frakklandi í milliriðli á EM karla í handbolta í dag. Staðan í hálfleik var 17:10 og var franska liðið ekki líklegt til að jafna í seinni hálfleik.

Tapið er það stærsta í sögu franska liðsins á Evrópumóti en stærstu töp Frakka fyrir mótið í ár voru með sjö mörkum. Frakkar töpuðu með sjö mörkum fyrir Þjóðverjum árið 1998, gegn Rússum árið 2000 og Króötum árið 2012.

Tapið er það stærsta hjá Frakklandi í öllum keppnum í þrjú ár eða síðan liðið tapaði fyrir Dönum með átta mörkum í undanúrslitum HM 2019, 38:30.

Þá var sigurinn sá fyrsti hjá Íslandi gegn Frakklandi á stórmóti í tæp tíu ár eða síðan Ísland vann 30:29-sigur á Ólympíuleikunum í London sumarið 2012.

Það sem gerir afrekið enn merkilegra er að það vantaði átta reyndustu liðsmenn Íslands vegna smita. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert