„Vissum ekki hvort við myndum ná í lið“

Ágúst Elí Björgvinsson þakkar íslenskum áhorfendum fyrir stuðninginn gegn Dönum.
Ágúst Elí Björgvinsson þakkar íslenskum áhorfendum fyrir stuðninginn gegn Dönum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson varði tvö vítaköst frá sjálfum Mikkel Hansen í leik Dana og Íslendinga á EM í handknattleik í Búdapest í gær. 

Ágúst var ekki á leikskýrslu í fyrstu þremur leikjunum en kom inn í liðið í gær eftir að Björgvin Páll Gústavsson smitaðist af kórónaveirunni. 

„Síðustu dagar hafa verið grillaðir. Við vissum ekki hvort við myndum ná í lið. Svo er þetta mikið áfall því það eru máttarstólpar í liðinu sem detta út. Fyrst voru það Bjöggi, Elvar og Óli og í dag voru það Aron, Bjarki og Gísli. Þetta eru þungavigtarmenn. Við tókum þunglyndið aðeins út í gær en svo bættist ofan á það daginn eftir. En við reynum að taka þessu eins og atvinnumenn. Ef við horfum á lokatölurnar þá finnst mér þetta vera fín úrslit en mér finnst samt að við hefðum getað unnið leikinn. Við spiluðum flotta og sterka vörn á köflum í síðari hálfleik en það vantaði í fyrri hálfleik.“

Fyrsta augnablik Ágústs á þessu EM var að koma inn á og verja víti frá Hansen. „Ég tók það. Annað hvort er það upp þarna megin eða niðri hinum megin. Jú það var gaman. Ég hef svo oft sé manninn spila handbolta að ég hef örugglega séð hann taka þúsund víti. Maður hefur séð nokkur videó með honum í gegnum árin. Ég hitti á réttu tímasetninguna og náði að koma höndinni fyrir boltann. Þannig séð var það geggjað móment en við verðum að fá fleiri vörslur og vörnin þarf að skapa meiri möguleika fyrir okkur að verja,“ sagði Ágúst Elí Björgvinsson þegar mbl.is spjallaði við hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert