Sektað vegna ofþrifinna stuttbuxna

Rasmus Lauge í ólöglegu innanundirbuxunum sínum í leiknum gegn Tékkum …
Rasmus Lauge í ólöglegu innanundirbuxunum sínum í leiknum gegn Tékkum á EM. AFP

Danska handknattleikssambandið hefur verið sektað af handknattleikssambandi Evrópu, EHF, um jafnvirði tæplega 90 þúsund íslenskra króna. Ástæðan er liturinn á stuttbuxum sem tveir leikmenn danska landsliðsins klæddust, undir keppnisstuttbuxum sínum, í leik gegn Tékkum á EM í Króatíu.

Danskir miðlar á borð við TV 2 og Ekstrabladet greina frá þessu. Leikmennirnir sem um ræðir eru Rasmus Lauge og Lasse Svan, en EHF taldi þá hafa brotið reglur um að innanundirbuxur verði að vera í nákvæmlega sama lit og stuttbuxurnar í keppnisbúningi viðkomandi liðs. Þannig mátti Lauge ekki klæðast gráleitum buxum undir hvítum stuttbuxum danska liðsins. TV 2 hefur eftir Mads Mensah, leikmanni danska liðsins, að gráleitu buxurnar hans hafi meira að segja upphaflega verið hvítar en einfaldlega farið of oft í þvottavél og orðið gráleitar!

Til samanburðar má nefna að Lino Cervar, þjálfari Króata, fékk aðeins þrisvar sinnum hærri sekt fyrir að grípa í leikmann Hvíta-Rússlands á meðan á leik stóð.

Danmörk mætir Þýskalandi kl. 17.15 í fyrri leik dagsins á EM en kl. 19.30 mætast vo Makedónía og Spánn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert