Sif hjálpað mér ótrúlega mikið

Ingibjörg Sigurðardóttir.
Ingibjörg Sigurðardóttir. mbl.is/Golli

Ingibjörg Sigurðardóttir heldur heim frá Hollandi með fullar töskur af reynslu eftir að hafa á skömmum tíma unnið sér sæti í íslenska landsliðshópnum og fengið sæti í byrjunarliðinu bæði gegn Frakklandi og Sviss á Evrópumótinu í knattspyrnu.

Ingibjörg, sem er 19 ára Grindvíkingur og leikmaður Breiðabliks, hefur þótt standa sig vel sem einn þriggja miðvarða íslenska liðsins. Þar leikur hún við hlið Sifjar Atladóttur sem hefur kennt henni mikið, eins og fleiri í liðinu:

„Ég hef lært ótrúlega mikið af þeim. Margar þeirra eru í atvinnumennsku og geta gefið mér ákveðna innsýn í hvernig þær æfa. Ég hef líka lært mikið um mína stöðu sem hafsent. Sif hefur hjálpað mér ótrúlega mikið, Glódís [Perla Viggósdóttir] líka og Anna Björk [Kristjánsdóttir] og fleiri. Ég hef lært ótrúlega margt,“ sagði Ingibjörg.

„Þetta var gríðarlega mikið stökk fyrir mig, að koma inn á þetta mót og fá alla þessa athygli og svona. Það hefur verið ákveðin áskorun fyrir mig að tækla það en ég hef lært mikið af því líka,“ sagði Ingibjörg, en pabbi hennar sagði við mbl.is á laugardag, léttur í bragði, að fyrir nokkrum árum hefði Ingibjörg hreinlega átt í vandræðum með að panta sér pítsu sökum feimni.

Ingibjörg sat fyrir svörum á fréttamannafundi í Rotterdam í dag og var einnig spurð út í það hvernig hún sæi sína framtíð fyrir sér og hvort hún stefndi á atvinnumennsku:

„Ég hef ekki verið að hugsa um það núna. Ég ætla að klára þetta verkefni með sóma og svo auðvitað í framhaldinu tímabilið með Breiðabliki. Auðvitað er markmiðið alltaf að fara síðar í atvinnumennsku, en ég er bara á Íslandi í bili að spila með Breiðabliki og er ánægð þar. Ég ætla því ekki að hugsa út í þetta núna strax.“

Eftir leikinn á morgun heldur íslenski hópurinn heim á leið og þó að úrslit leikjanna hafi ekki verið eins og leikmenn vonuðust til þá tekur Ingibjörg góðar minningar með sér heim. En hvers mun hún sakna mest?

„Það er ótrúlega skemmtilegt að vera með hópnum. Það er gott tempó og gaman á æfingum. Hótellífið er geggjað, maður þarf ekki að þrífa neitt eftir sig og svona,“ sagði Ingibjörg og uppskar hlátur. „Maður lærði mikið af þessu og reynir bara að peppa sig upp í heimferðina og það sem koma skal,“ bætti hún við.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 25. APRÍL

Útsláttarkeppnin