Strákarnir spila í Wales um sæti á EM

Daníel Tristan Guðjohnsen er fyrirliði U17 ára landsliðsins.
Daníel Tristan Guðjohnsen er fyrirliði U17 ára landsliðsins.

Íslenska drengjalandsliðið í knattspyrnu, skipað leikmönnum yngri en 17 ára, spilar í milliriðli Evrópumótsins 2023 í Wales í lok mars.

Dregið var í riðla í annarri umferð A-deildar mótsins í morgun og íslensku strákarnir verða í riðli með Svartfjallalandi, Wales og Skotlandi og er leikið í Wales dagana 22. til 28. mars.

Í A-deildinni eru 32 þjóðir sem leika um fimmtán sæti í lokakeppninni sem fer fram í Ungverjalandi í vor. Sigurliðin í riðlunum átta fara á EM ásamt sjö af þeim átta liðum sem hafna í öðru sæti riðlanna. Aðeins liðið með lakastan árangur í öðru sæti situr eftir.

Íslensku strákarnir léku í undanriðli í Norður-Makedóníu í nóvember þar sem þeir sigruðu bæði heimamenn og Lúxemborg en töpuðu fyrir Frökkum og höfnuðu í öðru sæti riðilsins, en það tryggði þeim sætið í milliriðlinum.

Einnig var dregið í riðla hjá U19 ára landsliði karla sem komst líka í milliriðla í síðasta mánuði þegar það endaði í öðru sæti undanriðils í Skotlandi.

Þar leikur Ísland í riðli með Englandi, Tyrklandi og Ungverjalandi en aðeins eitt lið kemst áfram í lokakeppnina sem fer fram á Möltu í júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert