Snýr aftur til Kórdrengja

Axel Freyr Harðarson í baráttu við Birki Má Sævarsson í …
Axel Freyr Harðarson í baráttu við Birki Má Sævarsson í leik Gróttu og Vals sumarið 2020. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Knattspyrnumaðurinn Axel Freyr Harðarson er genginn í raðir Kórdrengja, þar sem hann er búinn að skrifa undir tveggja ára samning. Kemur hann frá Víkingi úr Reykjavík.

Axel Freyr, sem er 22 ára gamall, þekkir vel til hjá Kórdrengjum þar sem hann lék með liðinu sem lánsmaður á síðasta tímabili og stóð sig vel í 1. deildinni, þar sem liðið leikur enn.

Hann hóf meistaraflokksferil sinn hjá Fram en skipti árið 2018 til Gróttu og var einn af lykilmönnum liðsins þegar það fór upp um tvær deildir á tveimur árum, úr 2. deild 2018 og 1. deild 2019 og lék sömuleiðis með liðinu í úrvalsdeild árið 2020.

Eftir að Grótta féll beint aftur niður árið 2020 hélt Axel Freyr til Víkings en þar hafa tækifærin verið af skornum skammti og því hefur hann ákveðið að endurnýja kynnin við Kórdrengi.

Axel Freyr, sem er fjölhæfur leikmaður sem leikur þó oftast í stöðu kantmanns, hefur alls leikið 92 leiki í efstu þremur deildunum hér á landi og skorað í þeim 13 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert