Jafnt í toppslagnum

FH-ingar halda toppsætinu í Lengjudeildinni.
FH-ingar halda toppsætinu í Lengjudeildinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

FH og Tindastóll, tvö efstu lið 1. deildar kvenna í knattspyrnu, Lengjudeildarinnar, áttust við á Kaplakrikavelli í kvöld og lauk leiknum með 1:1-jafntefli.

Hugrún Pálsdóttir kom Tindastóli yfir um miðjan fyrri hálfleikinn en Telma Hjaltalín Þrastardóttir jafnaði metin fyrir FH sex mínútum fyrir leikslok.

Þar með er staðan á toppnum óbreytt þar sem FH er áfram í efsta sæti og Tindastóll í öðru sæti.

Bæði lið eru með 20 stig en FH er með betri markatölu, auk þess sem Hafnarfjarðarliðið á leik til góða. Rétt á eftir þeim er Víkingur með 19 stig.

Í neðri hluta deildarinnar gerðu Grindavík og Fylkir markalaust jafntefli.

Grindavík er þar með áfram í sjöunda sæti, nú með 8 stig, og Fylkir er áfram í áttunda sæti, nú með 7 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert