15 ára hetja Víkings

Sigdís Eva Bárðardóttir sækir að marki Fjölnis í leiknum í …
Sigdís Eva Bárðardóttir sækir að marki Fjölnis í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Óðinn Þórarinsson

Víkingur úr Reykjavík hafði betur gegn Fjölni, 2:0, þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í knattspyrnu, Lengjudeildinni, í Grafarvogi í kvöld þar sem hin 15 ára gamla Sigdís Eva Bárðardóttir reyndist hetja Víkinga.

Sigdís Eva kom inn á sem varamaður á 66. mínútu, skoraði á 73. mínútu og svo aftur á 85. mínútu og sá þannig til þess að Víkingur hirti öll þrjú stigin. Sigdís er nú búin að skora fjögur mörk í deildinni, öll eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Með sigrinum fer Víkingur upp í annað sæti deildarinnar, að minnsta kosti um stundarsakir, þar sem liðið er nú með 19 stig eftir níu leiki.

Fjölnir er áfram í níunda og næstneðsta sæti með 4 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.

FH og Tindastóll eigast nú við þar sem Tindastóll er 1:0 yfir í Kaplakrika en ljúki þeim leik þannig fara Stólarnir upp í efsta sæti, FH niður í annað sæti og Víkingur þá niður í þriðja sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert