Valur átti ekki roð í Noregsmeistarana

Guðmundur Andri Tryggvason og Alfons Sampsted í baráttu í fyrri …
Guðmundur Andri Tryggvason og Alfons Sampsted í baráttu í fyrri leik Vals og Bodö/Glimt á Hlíðarenda. mbl.is/Árni Sæberg

Valur er úr leik í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu karla eftir annað 0:3 tap gegn Noregsmeisturum Bodö/Glimt í seinni leik liðanna í annarri umferð keppninnar í Bodö í dag. Valsmenn töpuðu þar með einvíginu 0:6 samanlagt.

Heimamenn réðu lögum og lofum í fyrri hálfleiknum og var það einungis fyrir tilstilli Hannesar Þórs Halldórssonar í marki Valsmanna að forysta Noregsmeistaranna var ekki meiri en eitt mark að honum loknum, þar sem landsliðsmarkvörðurinn varði nokkrum sinnum frábærlega.

Eina mark hálfleiksins kom á 26. mínútu. Patrick Berg tók þá hornspyrnu frá hægri á nærstöngina þar sem Ulrik Saltnes skallaði boltann aftur fyrir sig og yfir Hannes Þór. Birkir Már Sævarsson ætlaði að reyna að hreinsa frá á marklínunni en Brede Moe virtist ýta á bakið á honum.  Ekkert var þó dæmt og boltinn lak í fjærhornið, 0:1.

Í síðari hálfleik slökuðu heimamenn talsvert á klónni þar sem gætti minni ákafa í sóknarleiknum. Staðan enda orðin ansi álitleg og þurftu liðsmenn Bodö því ekki að fara sér að neinu óðslega.

Það breytti því ekki að eftir rúmlega klukkutíma leik skoruðu þeir aftur. Sebastian Tounekti gaf þá fyrir frá vinstri, fyrirgjöfin fór af Hugo Vetlesen og barst þaðan til Moe sem skaut af örstuttu færi, Hannes Þór varði en Moe tókst að skora í annarri tilraun, 0:2.

Eftir að sprækir varamenn komu inn á í kjölfar annars marksins fóru Bodö-menn aftur að gera Valsmönnum skráveifu og kom þriðja markið á annarri mínútu uppbótartíma. Vetlesen kom boltanum þá inn fyrir á varamanninn Elias Hagen sem fékk nægan tíma og kláraði af öryggi úr vítateignum, 0:3.

Það urðu lokatölur og Bodö flýgur áfram í þriðju umferð Sambandsdeildarinnar, þar sem það mætir að öllum líkindum Kósóvó-meisturum Prishtina.

Sigur Bodö í einvíginu reyndist algjört formsatriði og því morgunljóst að sá gífurlegi gæðamunur sem er á bestu norsku liðunum og bestu íslensku liðunum fer ekki minnkandi. Þvert á móti virðist hann einungis vera að aukast.

Valur, sem er með réttu besta lið Íslands enda ríkjandi Íslandsmeistarar og á toppi úrvalsdeildarinnar um þessar mundir, átti enda ekki nokkurn minnsta möguleika í leiknum í dag, og það sama var uppi á teningnum í fyrri leik liðanna að Hlíðarenda.

Bodö/Glimt 3:0 Valur opna loka
90. mín. Elias Kristoffersen Hagen (Bodö/Glimt) skorar +2 Vetlesen kemur boltanum á Hagen sem klárar af öryggi úr teignum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert