Pétur skoraði þrennu gegn Gróttu

Leikmenn Vestra gátu leyft sér að brosa í kvöld.
Leikmenn Vestra gátu leyft sér að brosa í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Bolvíkingurinn Pétur Bjarnason reyndist Seltirningum erfiður í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld og skoraði þrennu í sigri Vestra gegn Gróttu. Fjölnir vann Grindavík 2:1 en rauða spjaldið fór á loft í báðum leikjunum. 

Vestri var 1:0 yfir að loknum fyrri hálfleik gegn Gróttu fyrir vestan. Þá byrjaði hins vegar fjörið fyrir alvöru. Eftir að hafa komist í 2:0 léku Vestfirðingar manni færri sem eftir var. Grótta jafnaði 2:2 en Vestri náði að kreista fram þrjú stig manni færri og vann 4:3. 

Pétur skoraði á 23. og 56. mínútu. Jesus Sabater fékk sitt annað gula spjald á 74. mínútu og skoraði Pétur Theódór Árnason úr vítaspyrnu fyrir Gróttu í framhaldinu. Pétur Theódór skoraði aftur á 83. mínútu. Benedikt Warén kom Vestra yfir á 84. mínútu og Pétur Bjarnason náði þrennunni á 88. mínútu. Arnar Þór Helgason minnkaði muninn fyrir Gróttu á 89. mínútu og í kjölfarið fylgdu fimm mínútur í uppbótartíma en þær komu Seltirningum ekki að gagni. 

Andri Freyr Jónasson skoraði fyrir Fjölni.
Andri Freyr Jónasson skoraði fyrir Fjölni. Ljósmynd/Fjölnir

Grindvíkingurinn Marínó Helgason fékk rauða spjaldið strax á 21. mínútur í Grafarvogi í kvöld en Grindavík komst samt sem áður yfir 1:0 á 62. mínútu. Það dugði ekki til því Andri Jónasson og Michael Bakare snéru taflinu við fyrir Fjölni á þriggja mínútna kafla þegar um tuttugu mínútur voru eftir eða á 69. og 72. mínútu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert