Penninn á lofti í Eyjum

Leikmennirnir fimm glaðbeittir eftir undirskriftina.
Leikmennirnir fimm glaðbeittir eftir undirskriftina. Ljósmynd/ÍBV

Knattspyrnudeild ÍBV hefur samið við fimm unga og efnilega leikmenn.

Leikmennirnir, sem eru allir 16 ára gamlir og að ganga upp úr 3. flokki félagsins, heita Adam Smári Sigfússon, Dagur Einarsson, Einar Þór Jónsson, Haukur Helgason og Karl Jóhann Örlygsson. Gerðu þeir allir tveggja ára samning. Frá þessu er greint á heimasíðu ÍBV.

Í tilkynningu ÍBV segir:

„Þeir Adam Smári Sigfússon, Dagur Einarsson, Einar Þór Jónsson, Haukur Helgason og Karl Jóhann Örlygsson skrifuðu í gær undir 2ja ára samninga við knattspyrnudeild ÍBV. Þessir flottu peyjar voru í lykilhlutverkum í 3. flokki í fyrra sem stóð sig með stakri prýði. Þeirra bíða nú verkefni með 2. flokki og mögulega KFS eða aðalliði ÍBV. 

Það er gaman að sjá þann efnivið sem er í Eyjum og eru allir á 2. og 3. flokks aldri sem hafa áhuga á fótbolta hvattir til að mæta á æfingar og kynnast því metnaðarfulla starfi sem er í fótboltanum í Eyjum. Til hamingju með samningana strákar og áfram ÍBV!“

Fyrr í mánuðinum tilkynnti knattspyrnudeildin að tveir lykilmenn ÍBV hefðu sömuleiðis framlengt samninga sína um tvö ár, þeir Sigurður Arnar Magnússon og Breki Ómarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert