Íslandsmótið í uppnámi eftir smit?

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir í leik með Breiðabliki.
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir í leik með Breiðabliki. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Knattspyrnukonan Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir hjá Breiðabliki greindist með kórónuveiruna í dag. Andrea kom heim til Íslands frá Bandaríkjunum fyrir leik Breiðabliks gegn Selfossi í 2. umferð Pepsi Max-deildarinnar 18. júní. 

Samhæfingarstöð almannavarna staðfesti að leikmaður í efstu deild kvenna hafi greinst með veiruna og Fótbolti.net greinir frá að Andrea sé sú smitaða. 

Andrea kom inn á sem varamaður í leiknum gegn Selfossi og aftur gegn KR í gær. Þurfa væntanlega allir leikmenn og þjálfarateymi Breiðabliks að fara í sóttkví næstu tvær vikurnar, sem og leikmenn KR. 

Munu liðin væntanlega ekki spila næstu vikurnar, en næsta umferð Pepsi Max-deildarinnar fer fram næstkomandi þriðjudag og miðvikudag, en allir sem hafa verið berskjaldaðir fyrir smiti í samskiptum við hana þurfa að fara í sóttkví næstu 14 dagana. 

Fréttatilkynning frá Samhæfingarstöð almannavarna: 

Í dag greindist íslensk knattspyrnukona í efstu deild með jákvætt sýni í COVID-19-sýnatöku. Hún kom til landsins 17. júní sl. og reyndist sýnataka á landamærum neikvæð. Síðar kom í ljós að hún hafði verið í nánd við smitaðan einstakling erlendis og fór því aftur í sýnatöku. Sú sýnataka reyndist jákvæð. Sem stendur er hún einkennalaus. Allir sem hafa verið útsettir fyrir smiti í samskiptum við hana síðastliðna tvo sólarhringa þurfa að fara í sóttkví í 14 daga. Smitrakning er í gangi en ljóst er að margir þurfa að fara í sóttkví. Málið er í vinnslu og frekari upplýsinga er að vænta á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert