Strákarnir voru tilbúnir í stríð

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Árni Sæberg

Eiður Smári Guðjohnsen aðstoðarþjálfari U21 árs landsliðs karla í knattspyrnu var ánægður með frammistöðu liðsins í 1:0 sigrinum gegn Írum í undankeppni Evrópumótsins á Víkingsvellinum í dag.

Það var ósvikinn fögnuður í búningsklefa íslenska liðsins eftir leikinn en liðið sýndi heldur betur karakter eftir að hafa tapað 5:0 fyrir Svíum um síðustu helgi

„Við erum auðvitað mjög stoltir af liðinu. Það sást bara frá fyrstu mínútur að strákarnir voru tilbúnir. Við náðum að tala vel um síðasta leik og sýna þeim hvað fór úrskeiðis í þeim leik. Það var allt annað að sjá til liðsins í dag og ég leyfi mér að segja að þetta írska liðið er betra en það sænska. Það sýnir líka hvað er fín lína á milli að þegar við erum ekki alveg upp á tíu þá getur þú fengið skell. Heppnin var með Svíunum á meðan ekkert gekk upp hjá okkur en það er bara ein leið að svara fyrir sig,“ sagði Eiður Smári við mbl.is eftir leikinn.

„Við vorum búnir að leikgreina írska liðið í tætlur og við lokuðum nákvæmlega á þau svæði sem þeir vildu koma sér í. Við vissum að þetta yrði stríð og strákarnir voru tilbúnir í það. Það eru allir sigrar mikilvægir og við sjáum það að það verða fjögur lið í baráttu um efstu sætin. Með þessum sigri í dag og hvernig við getum spilað þá ætlum við að vera í toppbaráttunni,“ sagði Eiður Smári, sem sá son sinn, Svein Aron, skora eina mark leiksins úr vítaspyrnu.

Írland er með 10 stig í efsta sæti eftir fimm leiki, Ísland er með 9 stig eftir fjóra leiki og Ítalía er með 7 stig eftir þrjá leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert