Standa saman sem eitt lið

Brynjólfur Darri Willumsson í leik með U21 árs landsliðinu gegn …
Brynjólfur Darri Willumsson í leik með U21 árs landsliðinu gegn Armenum í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska U21 árs landslið karla í knattspyrnu verður í eldlínunni á Víkingsvellinum í dag þegar það mætir Írum í undankeppni Evrópumótsins. Flautað verður til leiks í Víkinni klukkan 15.

Íslendingar voru teknir í bakaríið af Svíum um síðustu helgi en Svíarnir fögnuðu 5:0 sigri. Ísland er í öðru sæti í riðlinum með 6 stig eftir þrjá leiki en Írar eru í toppsætinu með 10 stig eftir fjóra leiki.

„Við ætlum að koma til baka og bæta upp fyrir þennan skell sem við fengum í Svíþjóð,“ sagði sóknarmaðurinn Brynjólfur Darri Willumsson, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is.

„Við vitum að Írarnir eru mjög sterkir en ef við stöndum saman sem eitt lið þá getum við unnið öll liðin í þessum riðli. Við vorum vitaskuld mjög sárir eftir þessa útreið sem við fengum á móti Svíunum en það er gott að fá þennan leik svona fljótt á eftir. Við þurfum allir að vera hundrað prósent klárir, vinna fyrir hver annan og gera okkar besta og þá er allt mögulegt,“ sagði þessi 19 ára gamli Bliki við mbl.is.

Brynjólfur Darri skoraði 3 mörk í 17 leikjum með Breiðabliki í Pepsi Max-deildinni í sumar og reiknar með því að spila áfram með Kópavogsliðinu á næsta tímabili.

„Mér líður vel í Breiðabliki. Vissulega hef ég áhuga á að því að komast út í atvinnumennsku og mun skoða það ef eitthvað kemur upp á borðið,“ sagði Brynjólfur Darri, sem hefur skorað eitt mark í þremur leikjum U21 árs landsliðsins í undankeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert